Add parallel Print Page Options

Davíð safnaði enn saman öllu einvalaliði í Ísrael, þrjátíu þúsund manns.

Síðan tók Davíð sig upp og lagði af stað með allt það lið, sem hjá honum var, til Baala í Júda til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum.

Og þeir óku örk Guðs á nýjum vagni og tóku hana úr húsi Abínadabs, því er stóð á hæðinni, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó, synir Abínadabs, vagninum.

Ússa gekk með örk Guðs, en Ahjó gekk fyrir örkinni.

Og Davíð og allt Ísraels hús dansaði fyrir Drottni af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, bjöllum og skálabumbum.

En er þeir komu að þreskivelli Nakóns, greip Ússa hendinni í örk Guðs og hélt fast í hana, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin.

Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og Guð laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar hjá örk Guðs.

En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag.

Davíð varð hræddur við Drottin á þeim degi og sagði: "Hvernig má þá örk Drottins komast til mín?"

10 Og Davíð vildi ekki flytja örk Drottins til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat.

11 Og örk Drottins var síðan í húsi Óbeð Edóms í Gat þrjá mánuði, og Drottinn blessaði Óbeð Edóm og allt hans hús.

12 En er Davíð konungi komu þau tíðindi: "Drottinn hefir blessað hús Óbeð Edóms og allt, sem hann á, sakir Guðs arkar," þá lagði Davíð af stað og sótti örk Guðs í hús Óbeð Edóms og flutti hana til Davíðsborgar með fögnuði.

13 Og er þeir, sem báru örk Drottins, höfðu gengið sex skref, fórnaði hann nauti og alikálfi.

14 Og Davíð dansaði af öllum mætti fyrir Drottni, og var Davíð þá gyrtur línhökli.

15 Og Davíð og allt Ísraels hús flutti örk Drottins upp með fagnaðarópi og lúðurhljómi.

16 En er örk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann, og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa fyrir Drottni, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.

17 Þeir fluttu örk Drottins inn og settu hana á sinn stað í tjaldi því, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og Davíð færði brennifórnir frammi fyrir Drottni og heillafórnir.

18 Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins allsherjar.

19 Hann úthlutaði og öllu fólkinu, öllum múg Ísraels, bæði körlum og konum, hverjum fyrir sig einni brauðköku, einu kjötstykki og einni rúsínuköku. Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín.

20 En er Davíð kom heim til þess að heilsa fólki sínu, gekk Míkal, dóttir Sáls, á móti honum og mælti: "Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig!"

21 Þá sagði Davíð við Míkal: "Fyrir Drottni vil ég dansa. Hann hefir tekið mig fram yfir föður þinn og fram yfir allt hans hús og skipað mig höfðingja yfir lýð Drottins, yfir Ísrael, og fyrir Drottni vil ég leika

22 og lítillækka mig enn meir en þetta og líta smáum augum á sjálfan mig. En með ambáttunum, sem þú talaðir um, hjá þeim mun ég verða vegsamlegur."

23 Míkal, dóttir Sáls, var barnlaus til dauðadags.