Add parallel Print Page Options

Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta."

Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu.

Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður.

Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.

Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs.

Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir.

Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.

Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.

Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda,

10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:

11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.